þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Niðurlægjandi framkoma við konur


4. febrúar 2014

 

Lækni hér í heilsugæslunni í Laugarási, Pétri Skarphéðinssyni, finnst sniðugt að ganga inn í kaffistofu starfsfólks, sem er að mestu skipuð konum yfirleitt,  og hæðast að konum.

Í morgun gekk hann inn á kaffistofuna rétt fyrir klukkan níu.  Þar sátu fjórar konur sem allar starfa á heilsugæslunni. Afleysingarhjúkrunarforstjórinn, sem er kona, spurði hann hvort það væri mikilvægt að hún sæti yfirmannafund sem vera átti næsta morgun.  Svar læknisins var:  Nei það eru aldrei merkilegir fundir sem konur sitja. Hún skildi því bara sleppa því.

Þetta er svona í hundraðasta sinn sem ég hlusta þegjandi á athugasemdir viðkomandi læknis og mér var fyrirmunað að þegja lengur.  Ég sagði að mér fyndist svona brandarar ekki sniðugir og að ég sætti mig ekki lengur við að sitja þegjandi undir slíku. Í stað þess að biðjast afsökunar á niðurlægjandi athugasemd sinni, sem auðvitað var sögð í gríni,  hló Pétur að athugasemdum mínum. Hann sagði að það væri einmitt þess vegna sem hann kæmi með athugasemdir sem þessar til að æsa upp kvenfólkið í kringum sig, það þætti honum svo gaman.  Ég verð að viðurkenna að það hljóp í mig kergja og ég sagði lækninum að við svo búið yrði ekki lengur unað.  Héðan í frá myndi ég ekki sætta mig við að sitja þegjandi undir slíkum niðurlægjandi athugasemdum frá honum og ef hann héldi þessu áfram myndi ég ekki lengur láta sem ekkert væri. 

Pétur kvartaði þá sáran yfir öllu sem væri orðið bannað, það mætti ekki lengur tala illa um guð hvað þá djöfulinn. Það setti hljóðan á kvenfólkið á kaffistofunni.  Engin hinna kvennanna tók undir athugasemdir mínar eða studdi málstað minn og satt best að segja átti ég ekki von á því.  Það er einfaldlega þannig að læknar eru  hér í guðatölu, orð þeirra eru heilagur sannleikur, hvorki meira né minna. Það vogar sér aldrei neinn að vera ósammála þeim, alla vega hef ég ekki ennþá hitt þá manneskju hér í sveitinni þessi átta ár sem ég hef starfað hér.

Það þarf ekki að orðlengja það að ég var skíthrædd að mótmæla heilögum lækninum.  Allt mitt uppeldi hefur miðað að því að ég sé þæg og góð stúlka. Sem hlustar í andlagt þegar karlarnir tala. Og þannig er það einmitt á kaffistofunni. Í heilsugæslunni eru starfandi um tólf konur og tveir karlar. Það er merkilegt að fylgjast með því að þegar karl gengur inní kaffistofuna beinist öll athyglin að honum.  Hvort sem það er læknir eða utanaðkomandi gestur eða starfsmaður.  Við konurnar erum flestar komnar yfir fimmtugt og höfum örugglega fengið svipað uppeldi. Okkur finnst innst inni að þetta sé karlaheimur þar sem karlar hafa völdin og þeir mega tala og við eigum að þegja.  Ég held að yngri konur myndu ekki láta slíkt yfir sig ganga. Ég sé það á tendadætrum og systradætrum mínum að þær hafa ekki fengið þannig uppeldi að karlmenn séu æðri en konur. Sem betur fer.

Ég hef nú skorað á sjálfa mig að hætta að vera meðvirk með körlum sem niðurlægja konur. Ég ætla ekki lengur að sætta mig við að vera þæga og góða stúlkan. Ég mun mótmæla öllu misrétti og ójöfnuði sem ég verð vitni að. Við þurfum ekki að sætta okkur við að allt sé sagt í gríni. Og allra síst kvenfyrirlitningarbrandarar. Nei ekki lengur. Ég er gengin til liðs við aðrar konur eins og Hildi Lilliendahl sem ég dáist að fyrir hugrekki sitt og málefnalega umræðu.

44 ummæli:

  1. Flott hjá þér! Ég er stolt af þér að taka þetta skref fyrir okkur! :)

    SvaraEyða
  2. Kærar þakkir fyrir þetta. Frábært framtak.

    SvaraEyða
  3. Þetta er vel mælt! Undirtektir eru eftir því.
    https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=10152010746603952&id=182935038440906&stream_ref=10

    SvaraEyða
  4. Alltaf jafn merkileg þessi hegðun, að reita fólk viljandi til reiði, því „það er svo gaman“, en verða á sama tíma fúll yfir að mega ekki lengur segja neitt því fólk verði svo reitt.
    Gott hjá þér að svara fullum hálsi.

    SvaraEyða
  5. Takk fyrir flottan pistil og mjög svo þarfa umræðu! Núna þarf bara aðeins að sparka í rassinn á hinum konunum á kaffistofunni ;)

    SvaraEyða
  6. Flott hjá þér!
    En við þurfum greinlega líka að ala ungar konur betur upp. Ég fékk nett kast þegar ég heyrði í sjónvarpfréttum á laugardag fréttakonu spyrja ungan Fáskrúðsfirðing hvort hann ætlaði beint í verkfræðina. Fáskrúðfjörður var valin besta liðsheildin en stelpurnar í Brúarásskóla siguðu í keppninni fyrir bestu lausn í vélmennakappleik þ.e. fyrir gripinn sem þær hönnuðu. Voru þær spurðar? Ónei!
    Og gleðilega ár Nanna!

    SvaraEyða
  7. Ekki gleyma að konur eru í láglaunastétt og t.d. grunnskólakennari með 30 ára starfsreynslu rétt slefar 200þús þegar hann kemst á eftirlaun. Eftirlaun kvenna eru svo lág á Íslandi að það er til skammar!

    SvaraEyða
  8. Ég segi það nú sem harðasti talsmaður tjáningarfrelsis á Alþingi, sem mótmælir í hvert sinn sem lög eru sett sem banna tjáningu að nokkru tagi að fólki, að mér finnst alveg magnað hvað fólk sem segir heimskulega hluti á auðvelt með að rugla saman gagnrýni á orð sín við einhvers konar bann.

    Mér finnst áhugavert að hann lætur eins og hennar tjáning sé bann við hans tjáningu þegar í rauninni hún er bara að nýta sér nákvæmlega sama tjáningarfrelsi og hann kvartar undan því að hafa ekki (sem er nú reyndar efnislega satt þegar kemur að 125. gr. laga 19/1940). Sýnir kannski best að hann telur sig ekki mögulega geta sagt þessa hluti við minnsta mótmæli, sem er kannski í sjálfu sér fagnaðarefni.

    Helvíti flott hjá henni, hvernig sem á er litið.

    SvaraEyða
  9. Frábært hjá þér! Maður fyllist stolti þegar maður sér fólk taka sín fyrst skref í að mótmæla og segja eitthvað. Meðvirkni getur verið alveg jafn slæm og remban sjálf! Til hamingju! :)

    SvaraEyða
  10. Tengdamóðir mín Louisa Matthíasdóttir, sagði að íslenskur húmór væri ekki talinn fyndinn nema að einhver meiddi sig, oft hugsað um það. Eftir að vera giftur bandarískri konu í aldir og átt fjórar dætur með henni, hef ég verið að fara yfir minn eigin húmór, komist að því að ég er illa fatlaður. Á til að segja að Tarzan hafi verið alinn upp af öpum en samt orðið centilmaður, ég alinn upp af Íslendingum og þess vegna eins og ég er, ekki mér að kenna. :-) Á því við Íslendingar yfirleitt þurfum kannski að fara í enduhæfingu með húmórinn, að grínið gangi mest út á að ná náunganum niður, arfur úr baðstofunni.

    SvaraEyða
  11. Flott og þörf umræða. Það er óþolandi að þurfa að þola svona framkomu.

    SvaraEyða
  12. Vá, þú ert hugrökk. Þakka þér fyrir.
    Ég er með þér í liði líka. Ég reyndar var alin upp við þá trú að ég væri manneskja alveg eins og allt hitt fólkið í kringum mig, en þrátt fyrir það hef ég lent í ýmsum "leiðindum" (skalinn fer úr ógeði yfir þessa standard ófyndnu brandara sem tíðkast enn) sem tengjast kynjamisrétti.

    Nei takk. Ekki meir. Ég vil ekki að synir mínir alist upp við þetta. Við erum öll jafn æðisleg og verðug. Einfalt.

    Takk fyrir að vera memm Nanna Mjöll!

    SvaraEyða
  13. Flott og þörf umræða hjá þér mín kæra Nanna Mjöll :) Hættum að taka svona orðræðu þegjandi-

    SvaraEyða
  14. Vá, hvað þú ert mikill töffari. Til hamingju með að vera þú og sigra heiminn í dag. Vertu sterk í vinnunni á næstu dögum og vittu það að þú hefur stuðning internetsins.

    SvaraEyða
  15. Takk fyrir ágæta bloggfærslu sem vekur athygli á þörfu máli. Vekur líka upp þá spurningu hvernig "spaugsemi" akkúrat þessa læknis (sem er fyrrum héraðslæknirinn minn) fari í sjúklinga hans: Kunna konur í hans sjúklinghópi almennt að meta hans skopskyn?

    SvaraEyða
  16. Frábært hjá þér að taka ekki svona framkomu þegjandi. Það stoppar þetta engin fyrir okkur verðum að gera það sjálfar. Húrra fyrir þér!!!

    SvaraEyða
  17. Þetta eru allt látalæti í honum Pétri og hann hefur verið svona síðan ég kynntist honum tvítugum. Að maðurinn skuli láta svona fimmtíu árum síðar, er bara afrek. Annars eru þetta í sjálfu sér svona ofsaleg viðbrögð til að breiða ykir minnimáttarkennd.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Nákvæmlega - úlfaldi í vatnsglasi hér á ferð.

      Eyða
  18. Takk Nanna! Takk fyrir að taka slaginn fyrir okkur allar - vonandi skiptumst við sem flestar á að taka slagina :)

    SvaraEyða
  19. Glæsilegt! Tek ofan af fyrir þér :)

    SvaraEyða
  20. Þúsund þakkir fyrir að standa upp fyrir okkur konur og benda á það augljósa, en það er einmitt það augljósa sem svo oft er erfitt að koma auga á.
    Besti punkturinn fannst mér þegar þú talar um hvernig öll athygli fer á karlmanninn sem gengur inn í rýmið - þetta er svo satt og rétt og þarna viðhöldum við konur ójafnréttinu og valdaójafnvæginu milli kynjanna. Við tökum þátt í að upphefja karlana sem einhvers konar æðri og sterkari verur. Ég veit að ég á þetta til, hef verið meðvituð um þetta og átt erfitt með að breyta þessu og á það þá sérstaklega við gagnvart eldri mönnum.
    Enn og aftur, bestu þakkir fyrir hugrekkið og þína flottu rödd inn í svo mikilvægt málefni!!

    SvaraEyða
  21. http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/02/04/rannsokn-a-fordomum-islendingar-domhardari-gagnvart-korlum-en-konum/

    SvaraEyða
    Svör
    1. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

      Eyða
    2. Rannsóknin sýnir bara að fólk vill þyngri dóma fyrir karlkyns afbrotamenn miðað við þegar konur eru dæmdar. Sem er í raun kynjamismunun. Rannsoknin synir þá að fólk sjái en konur "veikara kynið" og þola þá verr betrunarvist?

      Eyða
  22. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  23. Sæl Nanna,

    Ummæli Péturs eru ósmekkleg og niðrandi fyrir konur þó þau séu sögð i gríni og hann æti að biðjast afsökunar á þeim.

    Það hins vegar spurning hvort fordómar og lítilsvirðing leynist ekki víðar, til dæmis hjá þér sjálfri. Á pressunni er haft eftir þér að það sé „rannsóknarverkefni hvort körlum yfir sextugt sé viðbjargandi“. Er þetta rétt eftir þér haft? Ef svo er: Ætlar þú að biðjast afsökunnar á þeirri karlfyrirlitningu sem birtist í þessum ummælum?

    SvaraEyða
  24. Nú er ég væntanlega kynslóðin fyrir neðan þig og því miður var það enn undirliggjandi á meðan ég var í grunnskóla að karlmenn væru kannski ekki æðri en mikilvægari, það verður síðan þegar ég er komin meira í kringum unglingsárin að háværar raddir fara að hljóma að konur séu jafn mikilvægar og karlar, að konur geta það sem þær ætla sér og eiga ekki að þegja og taka við skipunum frá karlpeningnum. Það var svona ein og ein kona sem stóð upp á mínum uppvaxtarárum og var með "læti" eins og sagt var. Og með þessum látum mundi hún fæla alla karlmenn frá sér.
    En sem betur fer hefur þetta viðhorf mikið breyst og við konurnar þurfum að vera sífellt vakandi og alltaf að berjast fyrir stöðu okkar, mér finnst vera ömurlegt. Því ekki þurfa karlar sífellt að vera vakandi og berjast fyrir stöðu sinni í samfélanginu.Ég mun ala mín börn eins upp, strák og stelpu, að þau eigi ekki að þegja og vera góð. Kurteis bæði en ekki að láta neinn vaða yfir sig, því þau eiga jafnan rétt bæði tvö og geta gert það sem þeim langar til. Ég vona að ég nái að koma minni baráttu áfram til barnanna minna og þeirra sem í kringum eru. Ég sé að þú gerir slíkt hið sama og þannig þurfa allir að vera. Til þess að það verði sjálfsagður hlutur að við séum öll jöfn. Því segi ég heyr, heyr fyrir slíkri umræðu og meira af þessu.

    SvaraEyða
  25. Til hamingju með þitt stóra skref Nanna að sitja ekki þegjandi undir þessu lengur. Þetta er svo kunnuglegt, bæði dónaskapurinn og meðvirknin með henni. Einn maður með ákveðin völd virðist geta hagað sér eins og hann vill í skjóli mikilvægrar stöðu sinnar og heilt samfélag getur verið meira og minna meðvirkt, því hef ég orðið vitni að og oftar en einu sinni. Þróunin verður svo þannig að ef viðkomandi einstaklingur er ekki stoppaður af virðist hann sífellt þurfa að ganga lengra og lengra, verða grófari og grófari til að ná að uppskera sömu athygli eða viðbrögð. Gangi þér allt í haginn, það þarf sterk bein til að takast á við svona nokkuð sem virðist hafa fengið að viðgangast lengi og þykir kannski bara nokkurn veginn orðið "normið" - þó utanaðkomandi myndi reka í rogastans við svona framkomu.

    SvaraEyða
  26. Fólk er oft haldið alls kyns vit-lausum hugmyndum um hina og þessa aðila og þar hef ég lent í því en oftast af starfssystrum vegna starfsaldurs míns. Fólk tekur hlutum á mismunandi vegu og ekki endilega víst að starfssystur mínar hafi áttað sig á því að þær væru að gera á minn hlut fyrr en ég nefndi það við þær og rökstuddi mína hlið.

    Frá því í bernsku hef ég sótt læknaþjónustu á Laugarás og ólst eiginlega upp við húmor Péturs. Ég tek honum létt og geri grín á hann á móti. Ef þér þykir hann vera að særa þig er auðvitað sjálfsagt mál að láta hann vita af því og gefa honum þá tækifæri til að laga það til. Gagnvart sjálfri mér vil ég ekki að hann hætti því ég hef gaman að því og líklega vegna þess ég ólst upp við mjög beinskeyttan húmor. Sem læknir er Pétur einn sá þægilegasti sem ég veit um í samskiptum, mér finnst auðvelt að ræða við hann og hann hefur aðstoðað mig heilmikið þegar ég þurfti að standa í læknastandi með eldri son minn.

    Mér finnst internetheimurinn vafasamur vettvangur til að nafngreina menn eða konur og persónulega finnst mér það segja meira um hugarástand skrifanda en þann sem verið er að ræða um. Ekki það, ef þér finnst brotið gegn þér, hiklaust ræða það við hann og síðan kalla eftir fundi sé ekki breyting. Þú segir í færslunni að þú hafir alltaf setið þegjandi og nú hafir þú fyrst látið skoðun þína í ljós og eftir svör hans ferðu beint í að skrifa færslu ? Ég hefði persónulega farið aðra leið.

    SvaraEyða
  27. Finnst þér það fyndið að niðurlægja læknirinn með því að birta nafn hans og finnst þér þú meiri manneskja fyrir vikið. Hefði ekki mátt á vinnustaðnum benda honum á að ykkur þætti þetta niðurlægjandi og beðið hann um að hætta þessu. Finnst þér þú vinna gagn með því að siga öllum á þennan mann sem þú nafngreinir. Þetta sýnir betur hvernig þú ert en ekki hann. Allir sæmilega skynsamir hefðu talað við viðkomandi og fengið hann til að hætta þessu. Nú eða þið sem vinnið með honum hefðuð geta skrifað honum að ykkur þætti þetta ekkert fyndið og það særði ykkur. En þú þurftir að hefna þín á honum með því að nafngreina hann opinberlega. það lýsir sér í fordómum þínum gagnvart mönnum sem komnir eru yfir sextugt. Af hverju er þér illa við þennan aldurshóp.?? Hvað hefur hann gert þér. ?? Af hverju niðurlægir þú alla karlmenn yfir sextugt.?
    Nei fólk leysir ekki sína viðkvæmni og hatur á öðrum með því að nafngreina það í fjölmiðlum. Þessi maður á örugglega fjölskyldu sem þykir vænt um hann. Er þér alveg sama þó þú særir hana. Líður þér betur núna.?? Ég þekki ekki þennan mann en ég vorkenni honum að þurfa að þurfa að taka þessu í fjölmiðlum sérstaklega ef hann er ekki meðvitaður um viðkvæmni þína. Má þá ekki segja að allur húmor sem varðar einhvern sé niðurlægjandi.??
    Eru t.d. Hafnafjarðarbrandarar og ljóskubrandarar og brandarar um gamalt fólk. ekki niðurlægjandi og ætti þá ekki að banna þá. Eða hvar á að setja mörkin á bara að banna brandara um konur.?
    Eigum við að leysa öll viðkvæm má í fjölmiðlum eða á staðnum.??

    SvaraEyða
  28. Læknabrandari.
    Hver er munurinn á Gudi og læknum ??
    Gud heldur ekki ad hann sé læknir !!

    SvaraEyða
  29. Mál til komið að menn tali ekki niðrandi um NEINN. TAKK Nanna.

    SvaraEyða
  30. Ég las þennan pistil fyrir nokkru og gladdist mjög mikið. Ég er tuttugu og eins og tók svipaða ákvörðun fyrir ekki svo löngu, að hætta að sitja á mér og samþykkja með þögn þegar svona fer fram. Sá núna umfjöllun Vísis um viðbrögð vinnustaðarins og þau valda mér miklum vonbrigðum. Þessi læknir hefði átt að biðjast almennilega afsökunar, ekki bera fyrir sig grín fyrst og segja svo að 'hafi einhver móðgast' - það er ekki nógu góð afsökun. Ég stend með þér Nanna, þú ert mjög flott fyrirmynd. Gangi þér allt í haginn.

    SvaraEyða
  31. Það hlýtur að flokkast sem einhverskonar sjúkdómur að halda því fram að karlahatarinn Hildur Lilliendahl sé málefnaleg :-)

    SvaraEyða
  32. Það er líka aðdáunarverð hræsni að mótmæla karlrembu og segja svo "að það sé rannsóknarefni hvort karlmönnum yfir sextugt sé viðbjargandi" sem er ekkert annað en massívir fordómar og hardcore kvenremba. Sem rímar svosem ágætlega við málflutning flestra femínasista þessa ágæta lands sem við lifum á.

    SvaraEyða
  33. Til hamingju með pistilinn!

    Við aðra vil ég segja; Það er alls ekki nógu góð afsökun "að hafa alltaf látið svona". Ekki óvirða mæður ykkar, systur og ömmur með slíkum ummælum!

    SvaraEyða
  34. Ég er alveg á móti misrétti og ofbeldi, hvort sem það er maður eða kona, hnefahögg eða lélegur brandari. Einnig get ég skilið það að ef einhver hefur lengi tekið hluti með þegjandi þögninni þá er auðvitað meiri hætta á að viðbrögðin séu öfgakennd. En.... það er varhugavert að leiða þetta út í einhverrja keppni hver niðurlægir hinn meira. Það er til ferli fyrir þetta, að fara í gegnum yfirmann heilsugæslunnar á Suðurlandi, að tala við verkalýðsfélagið og umboðsmann/tengilið starfsmanna. Í staðinn þarf nú að eyða tíma og kröftum í að slökkva elda áður en það er hægt að fara ræða vandamálið. Eins er ólíklegt að það sé réttlátt að notendur af heilsugæslunni á Laugarási séu láttnir vera í óvissu/óöryggi og jafnvel taka afstöðu með eða á móti viðkomandi læknir.

    SvaraEyða