mánudagur, 10. febrúar 2014

"Brandarar" um konur


8. febrúar 2014

 

Fyrir fjórum dögum bloggaði ég um líðan mína hér á vinnustaðnum mínum og kvartaði yfir ummælum samstarfsmanns míns sem gerði lítið úr konum. Honum fannst ekki merkilegir fundir sem konur sætu sagði hann.  Ekki óraði mig fyrir þeim viðbrögðum sem grein mín hafði. Hún fór á örskotsstundu um netið og nokkru síðan hafði samband við mig blaðamaður á Pressunni og skömmu síðan frá Fréttablaðinu. Þau vildu spyrja mig nokkurra spurninga sögðu þau. Ég varð nú hálf hvumsa við þessu og var upptekin í vinnunni, en ræddi við þau síðdegis ásamt blaðamanni frá DV sem einnig hringdi. Margir höfðu samband við mig og höfðu frá svipuðu að segja frá sínum vinnustað.  Viðbrögðin á netinu voru mikil og margir hvöttu mig og hrósuðu fyrir að hafa tekið þetta skref.  Svo voru aðrir sem voru ekki ánægðir með að ég hafði látið nafn samstarfsmanns getið í skrifum mínum.  Ég hefði alveg getað sleppt að nefna nafnið  hans, en ástæðan fyrir því að ég lét þess getið var sú að hér á Heilsugæslunni starfa tveir læknar og aðeins annar þeirra hefur þennan ljóta sið og að hæðast að konum.

Ég er ánægð með þá umræðu sem þessi skrif mín hafa sett af stað. Ég er nefnilega orðin hundleið á því að hlusta á endalausa niðurlægjandi „brandara“ um konur. Mér finnst þeir einfaldlega ekki fyndnir. Prófið aðeins að setja blökkumenn eða samkynhneigða í staðinn fyrir konur í setninguna hér fyrir ofan. Engum fyndist það fyndið. Eða rauðhærða. „Það eru ekki merkilegir fundir sem hommar sitja.“ Hvernig myndum við bregðast við svona „brandara“?

Nei það er nóg komið af niðurlægingabröndurum gagnvart konum. Innihaldi þeirra er oftast ætlað að halda við þeirri kvenímynd sem er við líði ennþá. Nefnilega að konur tali of mikið og að þær séu heimskar. Því sé allt sem þær segja innantómt bull. Það er því út í hött að hugsa sér að konur stjórni fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Sannarlega er kominn tími til að þessi úrelta sýn á konur víki fyrir jafnrétti. Konur eru nefnilega helmingur mannskyns. Og það er engan veginn hagur heimsins að halda þeim niðri með því að gera lítið úr þeim.

Ég las nýlega um Bechtel prófið. Það er notað á kvikmyndir til að mæla: hvort það séu amk. tvær konur í myndinni og að þær tali um eitthvað annað en karla. Frábært framtak. Ég legg til að við tökum upp álíka skala á fleira. Hvernig væri að skoða þætti í sjónvarpinu? Og fréttatímana? Sjónvarpþættir, bíómyndir og féttatímar fjalla um karla af körlum. Hvað þeir eru að gera og segja. Mér finnst að við ættum að setja reglur um að það ætti að vera amk. helmingur kvenna í öllum umræðuþáttum í sjónvarpinu. Og þegar stjórnandinn er karl þá þarf eina konu í viðbót meðal hinna þátttakendanna.

Ég  hef ekki enn komist yfir að lesa öll viðbrögðin sem greinin mín skapaði. Það kom mér á óvart hvað sumir voru reiðir og jafnvel dónalegir. Þessi umræða snýst ekki um mig eða samstarfsmann minn, sem er ekkert slæmur maður.  Karlar sem hæðast að konum hafa bara ekki enn skilið að heimurinn er að breytast. Það sem einu sinni þótti fyndið finnst flestum ekki lengur fyndið. Hún snýst um sanngirni og virðingu. Hún snýst um jafnrétti.

 

 

þriðjudagur, 4. febrúar 2014

Niðurlægjandi framkoma við konur


4. febrúar 2014

 

Lækni hér í heilsugæslunni í Laugarási, Pétri Skarphéðinssyni, finnst sniðugt að ganga inn í kaffistofu starfsfólks, sem er að mestu skipuð konum yfirleitt,  og hæðast að konum.

Í morgun gekk hann inn á kaffistofuna rétt fyrir klukkan níu.  Þar sátu fjórar konur sem allar starfa á heilsugæslunni. Afleysingarhjúkrunarforstjórinn, sem er kona, spurði hann hvort það væri mikilvægt að hún sæti yfirmannafund sem vera átti næsta morgun.  Svar læknisins var:  Nei það eru aldrei merkilegir fundir sem konur sitja. Hún skildi því bara sleppa því.

Þetta er svona í hundraðasta sinn sem ég hlusta þegjandi á athugasemdir viðkomandi læknis og mér var fyrirmunað að þegja lengur.  Ég sagði að mér fyndist svona brandarar ekki sniðugir og að ég sætti mig ekki lengur við að sitja þegjandi undir slíku. Í stað þess að biðjast afsökunar á niðurlægjandi athugasemd sinni, sem auðvitað var sögð í gríni,  hló Pétur að athugasemdum mínum. Hann sagði að það væri einmitt þess vegna sem hann kæmi með athugasemdir sem þessar til að æsa upp kvenfólkið í kringum sig, það þætti honum svo gaman.  Ég verð að viðurkenna að það hljóp í mig kergja og ég sagði lækninum að við svo búið yrði ekki lengur unað.  Héðan í frá myndi ég ekki sætta mig við að sitja þegjandi undir slíkum niðurlægjandi athugasemdum frá honum og ef hann héldi þessu áfram myndi ég ekki lengur láta sem ekkert væri. 

Pétur kvartaði þá sáran yfir öllu sem væri orðið bannað, það mætti ekki lengur tala illa um guð hvað þá djöfulinn. Það setti hljóðan á kvenfólkið á kaffistofunni.  Engin hinna kvennanna tók undir athugasemdir mínar eða studdi málstað minn og satt best að segja átti ég ekki von á því.  Það er einfaldlega þannig að læknar eru  hér í guðatölu, orð þeirra eru heilagur sannleikur, hvorki meira né minna. Það vogar sér aldrei neinn að vera ósammála þeim, alla vega hef ég ekki ennþá hitt þá manneskju hér í sveitinni þessi átta ár sem ég hef starfað hér.

Það þarf ekki að orðlengja það að ég var skíthrædd að mótmæla heilögum lækninum.  Allt mitt uppeldi hefur miðað að því að ég sé þæg og góð stúlka. Sem hlustar í andlagt þegar karlarnir tala. Og þannig er það einmitt á kaffistofunni. Í heilsugæslunni eru starfandi um tólf konur og tveir karlar. Það er merkilegt að fylgjast með því að þegar karl gengur inní kaffistofuna beinist öll athyglin að honum.  Hvort sem það er læknir eða utanaðkomandi gestur eða starfsmaður.  Við konurnar erum flestar komnar yfir fimmtugt og höfum örugglega fengið svipað uppeldi. Okkur finnst innst inni að þetta sé karlaheimur þar sem karlar hafa völdin og þeir mega tala og við eigum að þegja.  Ég held að yngri konur myndu ekki láta slíkt yfir sig ganga. Ég sé það á tendadætrum og systradætrum mínum að þær hafa ekki fengið þannig uppeldi að karlmenn séu æðri en konur. Sem betur fer.

Ég hef nú skorað á sjálfa mig að hætta að vera meðvirk með körlum sem niðurlægja konur. Ég ætla ekki lengur að sætta mig við að vera þæga og góða stúlkan. Ég mun mótmæla öllu misrétti og ójöfnuði sem ég verð vitni að. Við þurfum ekki að sætta okkur við að allt sé sagt í gríni. Og allra síst kvenfyrirlitningarbrandarar. Nei ekki lengur. Ég er gengin til liðs við aðrar konur eins og Hildi Lilliendahl sem ég dáist að fyrir hugrekki sitt og málefnalega umræðu.